Stofnað árið 2013
  

Siðareglur félags fornleifafræðinga

Siðareglur FF

Almennt:

Fornleifarannsóknir eru mikilvægar til að skilja og þekkja menningararf okkar. Sú þekking á horfnum samfélögum sem fæst við rannsóknir á fornminjum ermenningarleg sameign allra og ætti að vera öllum aðgengileg. Það er siðferðileg skylda allra félaga að sýna menningararfinum, faginu og öðrum fornleifafræðingum virðingu. Á fornleifafræðingum hvílir sú skylda að stuðla að varðveislu fornminja og haga rannsóknum sínum á þann veg að þær valdi sem minnstu raski en veiti sem áreiðanlegastar upplýsingar. Með því að samþykkja siðareglurnar viðurkenna fornleifafræðingar þessar skyldur. Fornleifafræðingar skulu leggja sitt af mörkum til þess að siðareglur þessar séu almennt virtar af félagsmönnum og stuðla að því að aðrir fornleifafræðingar taki þær upp.

Almennar vinnusiðareglur:

1. Fornleifafræðingar skulu sinna starfi sínu með þeim hætti að þeir varpi hvorki rýrð á fagið né félagið og uppfylla ströngustu kröfur um faglega og siðferðilega ábyrgð í starfi sínu.

2. Fornleifafræðingum ber skylda til að stuðla að verndun fornminja með öllum löglegum ráðum. Fornleifafræðingar skulu vinna að varðveislu fornleifa í nútíð og framtíð. Þeim ber skylda til að tryggja að rannsóknir á minjum séu vandlega og faglega unnar. Saga minjanna skal vera varðveitt með skráningu sem og útgáfu upplýsinga og niðurstaðna úr rannsóknum.

3. Fornleifafræðingar taka ekki þátt í eða leggja nafn sitt við nokkurs konar athæfi þar sem menningararfurinn er nýttur án þess að gætt sé að faglegum gæðum eða varðveislu hans.

4. Það er skylda allra fornleifafræðinga að vekja athygli þar til bærra yfirvalda á hvers konar hættu sem steðjar að minjum, s.s. vegna framkvæmda, skemmdarverka, náttúruvár, þjófnaðar eða ólöglegrar verslunar með menningarverðmæti og nota öll tiltæk ráð til að tryggja að viðkomandi yfirvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana í slíkum málum.

5. Fornleifafræðingum ber að hafa samráð og samvinnu við aðra fornleifafræðinga um sameiginleg viðfangsefni. Þeim ber að virða áhuga starfssystkina sinna og rétt þeirra til upplýsinga um minjastaði, rannsóknarsvæði, muni og gögn þar sem viðfangsefni þeirra skarast.

6. Fornleifafræðingum ber að sýna vinnu annarra fornleifafræðinga tilhlýðilega virðingu og mega ekki eigna sér verk þeirra eða hugmyndir.

7. Fornleifafræðingar skulu í starfi sínu forðast óheiðarleika og rangfærslur. Ekki skulu þeir vísvitandi leggja nafn sitt við neinar athafnir af því tagi og ekki heldur umbera þær hjá starfsfélögum sínum.

8. Fornleifafræðingum ber að varast að veita faglega ráðgjöf eða tjá sig opinberlega, eða fyrir dómstólum, um fornleifafræðileg málefni nema þeir hafi áður kynnt sér þau nægilega.

9. Við ráðningar skulu fornleifafræðingar gæta hlutleysis og sanngirni og forðast hvers lags mismunun s.s. vegna trúar, kynferðis, aldurs, kynþáttar, fötlunar eða kynhneigðar.

10. Fornleifafræðingar skulu forðast hvers kyns hagsmunaárekstra, sérstaklega milli þátta sem snúa að stjórnsýslu og framkvæmda á opnum markaði.

Siðareglur í vettvangsvinnu:

11. Við verkefnastjórnun fornleifarannsókna ber fornleifafræðingum að kynna sér lög og reglur sem gilda um störf þeirra og öryggismál og hlíta þeim í hvívetna.

12. Fornleifafræðingar skulu reyna að takmarka áhrif rannsókna sinna á umhverfið og ganga frá rannsóknarsvæði eins og best verður á kosið í samráði við landeigendur og þar til bær yfirvöld.

13. Fornleifafræðingar skulu ætíð undirbúa sig af kostgæfni fyrir þau verkefni sem þeir taka að sér og ekki taka að sér fornleifarannsóknir sem þeir eru ekki færir um að sinna.

14. Vönduð rannsóknaráætlun er forsenda hverrar rannsóknar. Áætlun um forvörslu og endanlega geymslu gripa, sýna og annarra gagna skal ávallt gerð áður en rannsókn hefst.

15. Við allar rannsóknir skulu fornleifafræðingar tryggja að rannsóknargögn séu skráð á fullnægjandi hátt og þau varðveitt á varanlegu formi, samkvæmt gildandi lögum og reglum.

16. Fornleifafræðingum ber skylda til að upplýsa almenning um tilgang og niðurstöður rannsókna á sem skýrastan hátt. Þeim ber að kynna niðurstöður fornleifarannsókna á ábyrgan og heiðarlegan hátt og forðast ýkjur og villandi staðhæfingar um fornleifafræðileg málefni. Fornleifafræðingar skulu ganga frá nákvæmum og skýrum skýrslum um rannsóknir sínar eins fljótt og auðið er. Þeir skulu gera niðurstöður rannsókna sinna aðgengilegar.

17. Fornleifafræðingar skulu fá skriflegt leyfi fyrir notkun óbirtra gagna úr rannsóknum annarra fornleifafræðinga og gera grein fyrir ábyrgðamanni gagnanna þegar til þeirra er vitnað. Vitna ber í slík gögn eins og aðrar heimildir.

 

Samþykktar á aukaaðalfundi Félags fornleifafræðinga 30. mars 2015