Stofnað árið 2013
  

Skýrsla um Landssímareit enn ókomin: Svar stjórnar Félags fornleifafræðinga

Stjórn Félags fornleifafræðinga undrast gagnrýni í fréttaflutningi Morgunblaðsins um aðgang að
gögnum í vörslu stjórnanda fornleifarannsóknar á Landssímareitnum og hefði talið nærtækast
að blaðið nýtti strax lögformlegar heimildir sínar til að fá þær upplýsingar sem það á rétt á hjá
stjórnvöldum. Er engu líkara en blaðamaður hafi talið sig eiga heimtingu á vinnuskjölum og
úrvinnslugögnum fornleifafræðings, s.s. ljósmyndum og gripum, löngu áður en rannsókninni er
lokið. Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands er fornleifarannsókn á Landssímareit
ekki formlega lokið og ekki hefur verið gerð krafa um skil á lokaskýrslu. Stjórn Félags
fornleifafræðinga telur að fréttaflutningurinn beri keim af deilum um framtíð reitsins og er þar
vegið ómaklega að félagsmanni.

Fornleifarannsókn krefst ítarlegra greininga og túlkunar á öllum þeim gögnum sem safnað er á
vettvangi og henni telst ekki endanlega lokið fyrr en öllum gögnum og gripum hefur verið skilað
til Þjóðminjasafns Íslands ásamt rannsóknarskýrslum til Minjastofnunar, sbr. 40. gr. laga um
menningarminjar og reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna nr. 339/2013.

Fyrir þá sem þekkja starfsumhverfi fornleifafræðinga ætti ekki að koma á óvart að aðstæður
rannsókna sem farið er í vegna byggingaframkvæmda breytast í sífellu og fornleifafræðingar
þurfa að aðlaga starfsumhverfi sínu samkvæmt því.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

 

Hér má sjá fréttaflutning Morgunblaðsins: mbl