Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Bréf til Forsætisráðuneytisins vegna hugsanlegrar sameiningar Þjóðminjasafns og Minjastofnunnar Íslands

Nýverið hafa fornleifafræðingum borist það til eyrna að Forsætisráðuneytið íhugi að sameina Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands undir eina stofnun. Stjórn Félags fornleifafræðinga ákvað að senda Forsætisráðuneytinu bréf til að fá fleiri upplýsingar um málið. Hér er bréfið sem sent var í nafni félagsins:

Heil og sæl,

nú hefur Félagi fornleifafræðinga borist til eyrna að það eigi að sameina Minjastofnun Íslands við Þjóðminjasafn Íslands. Það eru töluverðar áhyggjur varðandi þetta hjá starfandi fornleifafræðingum á Íslandi.
Þar sem þetta er okkur hagsmunamál óskum við eftir því að fá nánari útskýringar á sameiningunni. Hvort og hvenær þetta verði að veruleika og einnig hvernig skipulagi stjórnsýslu verði háttað í framhaldi? Getum við fengið send einhver gögn sem gætu mögulega svarað þessum spurningum? Auk þessa óskum við eftir fundi með hópnum sem stýrir þessu verkefni.
Með kveðju,
stjórn Félags fornleifafræðinga

Við vonum að við fáum svör sem fyrst og látum félaga okkar að sjálfsögðu vita um þróun mála.

Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði

 

Kevin Martin ætlar að flytja fyrir okkur annan fyrirlesturinn í þessar skemmtilegu fyrirlestrarröð sem fer fram á vorönn 2016. Það var frábært að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta síðasta miðvikudag og vonum við að allir geti einnig flykkst í sal Þjóðminjasafns Íslands á morgun, 26. janúar til að hlusta á þennan áhugaverða fyrirlestur um fornleifafræði hinnar dönsku einokunnarverslun á Íslandi. Kevin Martin - auglýsing

Ferðastyrkur Letterstedtska sjóðsins

Ertu að stefna á vinnuferð til norrænu landanna eða jafnvel Eystrasaltsríkjanna? Þá er um að gera að nýta sér þennan frábæra ferðastyrk Lettarstedtska sjóðsins. Þeir sem koma til greina sem umsækjendur er allir sem lokið hafa námi og hyggja á frekari rannsóknir eða þekkingarleit á starfssviði sínu, svo sem við rannsóknir á vísinda- eða fræðastofnun eða með þátttöku í fundum eða ráðstefnum.

Frekari upplýsingar um styrkinn og umsóknarferlið er að finna á heimasíðu Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins.

Ráðið í störf hjá Minjastofnun Íslands

Ráðnir hafa verið fornleifafræðingar í þau tvö störf sem Minjastofnun Íslands auglýsti í vor. Rúnar Leifsson hefur verið ráðinn minjavörður Austurlands og Oddgeir Isaksen hefur verið ráðinn sérfræðingur á sviði skráningarmála hjá stofnuninni. Voru 15 umsóknir um minjavarðarstöðuna en 61 um starf sérfræðings á sviði skráningarmála.

http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1184

http://www.minjastofnun.is/um-stofnunina/frettir/nr/1185

Ný bók – Ruin Memories: Materialities, Aesthetics and the Archaeology of the Recent Past

Það er alltaf gaman að segja frá útkomu nýrra fornleifafræðibóka, ekki síst þegar íslenskir fornleifafræðingar hafa þar hönd í bagga: út er komin bókin Ruin Memories: Materialities, Aesthetics and the Archaeology of the Recent Past sem ritstýrt er af Þóru Pétursdóttur og Bjørnar Olsen en einnig ritar í hana Gavin Lucas.

Um bókina má fræðast hér: http://www.routledge.com/books/details/9780415523622/
eða á Amazon: http://www.amazon.co.uk/Ruin-Memories-Materialities-Archaeological-Orientations/dp/0415523621/ref=sr_1_1?s=books&ie=UTF8&qid=1399985968&sr=1-1&keywords=%C3%BE%C3%B3ra+p%C3%A9tursd%C3%B3ttir

Lokaritgerðir í fornleifafræði við HÍ vorið 2014

Sjö lokaritgerðum var skilað í fornleifafræði við Háskóla Íslands í upphafi mánaðarins. Um er að ræða fimm BA ritgerðir og tvær MA ritgerðir og fjalla þær um efni allt frá mannvistarleifum á Grænlandi til eldstæða í Sveigakoti. Einnig fjallaði ein lokaritgerði í Hagnýtri menningarmiðlun um fornleifafræðilegt efni: miðlun skráningar á minjum í hættu. Eftirfarandi eru útdrættir úr ofantöldum ritgerðum og slóð inn á hverja og eina á Skemmunni fyrir áhugasama, en þess ber þó að geta að ritgerðirnar eru læstar fram yfir útskrift 21. júní nk.

 

MA ritgerðir:

Scott Riddell – A Palynological Study of Land Use in Medieval Mosfellsdalur, Pre-Landnám-AD1226

“Since the 1960’s pollen studies have shown that Hordeum-type pollen was grown in south west Iceland in medieval times. More recently it has been inferred that cultivation in the medieval period may have been exclusive to high status farming estates e.g. Hrísbrú in Mosfellsdalur. This raises the question of whether or not cereals were cultivated on smaller farm holdings. This study sought to address this question by comparing existing pollen data from Hrísbrú, Mosfell and Leirvogstunga with new pollen data from Helgadalur and Skeggjastaðir. All are located within Mosfellsdalur and all have archaeological remains dated to c. AD 871-1226. Standard pollen counting and rapid scanning methods were applied and the chronological framework was constructed around a suite of tephra layers of known origin and date. Vegetation histories were reconstructed for Helgadalur and Skeggjastaðir that reveal the character of the environment before and after AD 871+/-2 (Landnám). Evidence was found of human activity at Skeggjastaðir immediately prior to the conventional date of settlement. Evidence also suggests a change in land use in Mosfellsdalur during the mid-12th century. More importantly, no Hordeum-type pollen was identified at either Helgadalur or Skeggjastaðir and it is concluded that cereal cultivation was the preserve of Hrísbrú (and probably Mosfell) c. AD 871-1226.”

http://skemman.is/item/view/1946/17703

 

Ásta Hermannsdóttir – Ert þú svona sætur? Sel og seljabúskapur á Íslandi með áherslu á Helgafellssveit og Eyrarsveit á Snæfellsnesi

“Seljabúskapur var lengi framan af lítt rannsakaður á Íslandi en á síðustu áratugum hafa farið fram fornleifarannsóknir sem miða að því að gera bragarbót þar á. Ritgerðin miðar að því að líta yfir farinn veg og benda á þá staðreynd að seljabúskapur var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis og þess vegna má gera ráð fyrir mismun og margbreytileika í seljabúskap á landsvísu. Alhæfingar um ýmsa þætti seljabúskapar á Íslandi og hugmyndir um einsleitni í seljabúskap eiga ekki við og nauðsynlegt er að skoða sel og seljabúskap hvar sem er í sínu landslags-, samfélags- og efnahagslega samhengi. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er sýnt fram á hve mikilvægt samhengi seljabúskaparins er í rannsóknum á honum og hvernig breytingar í því kerfi sem hann var hluti af höfðu áhrif á seljabúskapinn. Er þetta gert með því að rannsaka endalok seljabúskapar í Helgafellssveit og Eyrarsveit á norðanverðu Snæfellsnesi og er grundvöllur þeirrar rannsóknar gögn nýlegs rannsóknarverkefnis – Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi. Endalok seljabúskapar í þessum tveimur sveitum voru ekki eins þótt ákveðnir hlutar ferlisins hafi haldist í hendur. Hægt er að rekja þennan mismun til breytileika í samfélags- og efnahagslegu kerfi sveitanna auk mismunandi landslags í sveitunum tveimur.”

http://skemman.is/item/view/1946/17622

 

BA ritgerðir:

Kristín Sylvía Ragnarsdóttir – Lífskjör og líkamshæð. Samanburðarrannsókn á líkamshæð Íslendinga og einstaklinga úr Skriðuklausturskirkjugarði

“Megin tilgangur þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á líkamshæð einstaklinga sem voru jarðsettir í kirkjugarðinum á Skriðuklaustri og bera hana saman við líkamshæð á Íslandi í dag. Fyrst verður fjallað um niðurstöður fyrri líkamsmælinga Íslendinga áður en farið verður í sögu Skriðuklausturs, stofnun, starfsemi og endalok þess. Þar á eftir verður kirkjugarðinum á Skriðuklaustri lýst og fjallað stuttlega um þá einstaklinga sem jarðaðir voru þar. Að endingu verður ræddur samanburður á hæðamælingum í fortíð og nútíð. Beinasafnið frá Skriðuklaustri gefur vissa mynd af heilsufari einstaklinga á Austurlandi á 16. öld þar sem starfræktur var spítali á svæðinu. Með því að fylgjast með meðalhæð fólks í gegnum árin er hægt að fá fram mynd af því samfélagi sem einstaklingarnir bjuggu í á þeim tíma sem þeir létust. Ljóst er að meðalhæð Íslendinga hefur hækkað frá því fyrstu menn komu hingað til lands og hefur hún haldið áfram að hækka fram til þessa dags. Hægt er að rekja þessa hækkun til betri samfélagsaðstæðna, uppbyggingu heilbrigðiskerfis og meðvitundar um næringarinntöku mannsins.”

http://skemman.is/item/view/1946/18186

 

Guðrún Helga Jónsdóttir – Hjálpi mér allir heilagir. Pílagrímsgripir í íslenskum fornleifum.

“Í ritgerð þessari er fjallað um pílagrímsgripi frá kaþólskum tíma. Þeir hafa ekki verið áberandi í íslenskum fornleifum hingað til. Farið er yfir sögu pílagrímsferða Íslendinga og annarra Evrópubúa. Aðallega er þar sjónum beint að ferðum innan Evrópu. Litið er á helgiskríni í íslensku og erlendu samhengi en aðeins tvö íslensk helgiskríni hafa varðveist frá miðöldum og er eingöngu annað þeirra geymt á hér á landi. Hitt er í Kaupmannahöfn. Skoðaðir eru hvers konar gripir það voru sem pílagrímar keyptu en þeir voru margskonar, en þeir eiga það sameiginlegt að vera frekar smáir og framleiddir úr ódýrum efnivið. Gífurlega mikið hefur fundist af pílagrímsgripum bæði í Englandi og Hollandi. Gott yfirlitsrit hefur verið gefið út í Englandi og Frakklandi yfir fundna gripi og er búið að opna gagnagrunn á netinu í Hollandi. Farið var yfir gripi sem fundist hafa á Íslandi sem gætu verið pílagrímsgripir. Var litið á gögn frá nokkrum uppgröftum og leitað að gripum tengdum pílagrímsferðum þaðan sem og í gagnagrunninum Sarpi. Áhugavert er að velta fyrir sér hvort pílagrímsgripir hafi verið framleiddir hér á landi en ekki hafa fundist hingað til minjar um það.”

http://skemman.is/item/view/1946/18068

 

Jónas Haukdal Jónasson – Eldstæði í Sveigakoti. Flokkun eldstæða í Sveigakoti

“Fjöldi og fjölbreytileiki eldstæðanna í Sveigakoti gefur tilefni til flokkunar á þeim.
Ritgerðin fjallar um eldstæði í Sveigakoti og samanburð á þeim við önnur sambærileg eldstæði með það að markmiði að gera betur grein fyrir þeim hugtökum sem eru í fræðilegri umræðu um eldstæði. Athugað var hvort einhver flokkur eldstæða félli út fyrir þessa hugtakanotkun. Eldstæði Sveigakots voru flokkuð í tvo aðalflokka, formleg og óformleg eldstæði, hver með sínum undirflokki. Sýndar verða töflur sem gefa nánari upplýsingar um flokkana. Gerð hefur verið eldstæðaskrá sem mun auðvelda lesandanum að átta sig á formgerð eldstæðanna.”

http://skemman.is/item/view/1946/18193

 

Hermann Jakob Hjartarson – Mannvistarleifar í túni við biskupssetrið að Görðum á Grænlandi. Greining á umfangi

“Í þessari ritgerð er fjallað um uppgröft sem fram fór á túni fyrir neðan miðaldabiskupssetrið að Görðum í Grænlandi árin 2012 og 2013. Markmiðið er að greina þá fundi og mannvistarlög sem grafin voru upp til að spá um hvar fleiri mannvistarleifar er að finna. Fundum er skipt í sex flokka og mannvistarlögum í tvo flokka. Með hjálp landupplýsingakerfis er sett fram tilgáta um hvernig þessir fundaflokkar og mannvistarlög dreifast yfir óuppgrafna svæðið. Á grundvelli þessarar greiningar er sett fram rökstudd tillaga um hvar best er að grafa næst ef fara á út í frekari rannsóknir og áætlað hversu mikið af gripum og öðrum fundum má búast við að finna.”

http://skemman.is/item/view/1946/18169

 

Viktoría Halldórsdóttir – Viðey – heimsótt á ný

Í Viðey var eitt af níu langstarfandi klaustrum á Íslandi en það starfaði frá 1226 til 1539. Markmiðið með ritgerðinni er að nota gripi sem fundust við fornleifarannsóknina sem var gerð í Viðey á árunum 1987 til 1995 til þess að greina umsvif klaustursins sem þar var rekið. Einkum verða gripir sem tengjast trúarlegum athöfnum skoðaðir og tilraun gerð til þess að aldursgreina þá. Gripirnir sem fjallaðir er um eru perlur af talnaböndum, vaxtöflur, altarissteinar, krossar og líkneski. Athugað verður hvort þeir geti varpað ljósi á það hvort um klausturbæ eða klausturhús er að ræða þar sem grafið var. Reynt var að skoða gripina í samhengi við byggingarstig rústanna og ef einhverjar breytingar hafa orðið á gripaflórunni á milli þeirra. Gengið var út frá því að í klaustri hefðu trúarlegar athafnir farið fram, eins og bænahald, samhliða hefðbundnum híbýlaháttum. Greining gripanna krafðist nokkurrar endurskoðunar á fyrirliggjandi túlkun og aldri rústanna í Viðey vegna þess að þeir höfðu ekki verið skoðaðir áður með þetta tiltekna markmið að leiðarljósi. Niðurstaðan er sú að gripaflóran öll sem skoðuð var gefi sterka vísbendingu um að trúarlegir athafnir hafi farið fram í rústum þeirra húsa sem grafin voru upp. Styður niðurstaðan um leið fyrirliggjandi kenningar um að rústirnar séu af klaustrinu sjálfu.”

http://skemman.is/item/view/1946/18226

 

Ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun:

Sigurjóna Guðnadóttir – Minjar í hættu. Miðlun fornleifaskráningar á vefnum minjarihaettu.wordpress.com

“Á Íslandi er að finna fornminjar um land allt, frá öllum tímum Íslandsbyggðar og allar í mismunandi ástandi. Margar þessara minja eru að hverfa vegna náttúruafla, þá t.d. vegna ágangi sjávar og uppblásturs.
Hér er farið yfir mikilvægi þess að skrá þessar minjar með fornleifaskráningu áður en þær hverfa. Einnig er farið í hver markhópurinn getur verið fyrir þessum upplýsingum, hvernig mismunandi miðlunarleiðir er hægt að velja til þess að miðla þeim og afhverju vefmiðlun var valin.
Vefurinn Minjar í hættu snýst útá að miðla fornleifaskráningunni sem var gerð ásamt rituðum heimildum sem eru til um þessa staði. Markhópurinn fyrir heimasíðuna eru; skólahópar, fólk sem hefur áhuga á göngum, sögu, fornleifafræði, náttúru og menningarvernd.”

http://skemman.is/item/view/1946/17741