Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Skógarnýting í Fnjóskadal – Lísabet Guðmundsdóttir

Þá er komið að næsta fyrirlestri í fyrirlestraröðinni ‘Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði’. Í þessari viku er það Lísabet Guðmundsdóttir sem ætlar að flytja fyrir okkur erindi um rannsókn sína á skógarnýtingu í Fnjóskadal, en Fnjóskadalur var mikð járnvinnsusvæði fyrr á öldum og margt bendir til þess að skógurinn á svæðinu hafi verið nýttur með skipulögðum hætti. Hlökkum til að sjá ykkur!

Skógarnýting í Fnjóskadal - Lísabet Guðmundsdóttir

Hildur Gestsdóttir – Hrífunes

Eftir vikuhlé heldur fyrirlestraröðin ‘Nýjar rannsóknir í fornleifafræði’ áfram og núna er það hún Hildur Gestsdóttir sem ætlar að kynna fyrir okkur rannsóknir sínar Á Hrífunesi í Skaftártungu. Sjáumst öll hress og kát í hádeginu að venju. Allir velkomir!

Hildur - Hrífunes

Fundargerð félagsfundarins 25. feb 2016

Fundargerð Félagsfundarins um fyrirhugaða sameiningu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunnar Íslands er komin á netið. Hægt er að nálgast hana hér. Þar er einnig hægt að sjá fréttatilkynningu frá félaginu  sem send var á fréttamiðlana sem og umsögninni um lagafrumvarpið sem sent var á Forsætisráðuneytið.

Svona til gaman setjum við svo með nokkrar myndir af fundinum sem teknar voru í byrjun hans þegar allir voru ennþá glaðir og hressir. 🙂

12765639_10153197642651685_1704974032_o                  12788052_10153197643011685_1741932090_n

12781967_10153197643126685_1035505094_n                     12782010_10153197643061685_1145926175_n

Fréttatilkynning frá félagi fornleifafræðinga

 

Fréttatilkynning frá Félagi fornleifafræðinga

Ályktun fundar þann 25. febrúar 2016

 

Afturhvarf í íslenskri stjórnsýslu

Vér mótmælum öll!

Félag fornleifafræðinga mótmælir harðlega fyrirhugaðri sameiningu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Vinnubrögðin við vinnslu frumvarpsins voru ófagleg og bera vitni um skort á þekkingu á málaflokknum. Frumvarpið ber hratt að og var unnið í sáralitlu samráði við fagaðila.

Stöðugleika hefur verið náð í minjavörslu frá því að Minjastofnun Íslands var stofnuð 2013 en fyrirliggjandi frumvarp er afturför sem mun hafa varanleg og skaðleg áhrif á starfsumhverfi fornleifafræðinga og minjarnar í landinu. Vegið er alvarlega að frelsi til vísindarannsókna með tillögu um miðstýrða rannsóknarstefnu í fornleifafræði. Verði frumvarpið að lögum mun það binda endi á um 150 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands á sviði fornleifarannsókna.

 

Fyrirlestur dagsins fellur niður

Fyrirlestur Albínu Huldu Pálsdóttur með titilinn ‘Hundar á Íslandi frá landnámsöld til 1800‘, fellur niður í dag sökum óviðráðanlegra ástæðna. Við munum þó reyna að koma honum fyrir síðar í dagskránni og því mun vonandi enginn þrufa að missa af þessum spennandi fyrirlestri.

Félagafundur um sameiningu MÍ og ÞJMS fimmtudaginn 25. febrúar

Stjórn félagsins boðar til fundar næsta fimmtudag kl. 17.00 í Reykavíkurakademíunni þar sem rætt verður um sameiningu MÍ og ÞJMS í eina, Þjóðminjastofnun, ásamt drögum að lagafrumvarpi sem við sendum ykkur í fyrradag.

Frestur til að senda inn athugasemdir á frumvarpinu var veittur til mánudagsins 29.feb.(fyrir hádegi) af Sigurði Erni Guðleifssyni, skrifstofustjóra á skrifstofu þjóðmenningar, á fundi nú fyrir hádegi sem stjórnin átti með honum.
Við vonum að sem flestir félagsmenn mæti á þennan mikilvæga fund sem varðar okkur öll. Fyrir þá sem ekki komast á fundinn vegna óviðráðanlegra ástæðna væri gott að fá athugasemdir sendar í tölvupósti, ef einhverjar eru.
Með kveðju,
Stjórnin

Fréttabréf um fundarboð Capacent vegna fyrirhugaðrar sameiningar ÞJMS og MÍ

Við birtum hér fréttabréf sem sent var á félagsmenn á dögunum:

Reykjavík 8. febrúar 2016

Kæru félagar,

Fyrir tveimur vikum sendi stjórn Félags fornleifafræðinga póst á Forsætisráðuneytið og óskaði eftir upplýsingum um meintar viðræður um sameiningu Minjastofnunar og Þjóðminjasafns sem orðrómur hefur verið á kreiki um í einhvern tíma. Í svari frá ráðuneytinu kom m.a. fram:

Forsætisráðherra hefur skipað stýrihóp sem ætlað er að greina, meta og eftir atvikum endurskipuleggja þau verkefni sem Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands sinna skv. lögum. Nú stendur yfir vinna við verkefnagreiningu Minjastofnunar og Þjóðminjasafns sem unnin er af ráðgjöfum okkar í samvinnu við forstöðumenn stofnananna tveggja. Í þeirri vinnu er rætt við stjórnendur og starfsmenn stofnana og samhliða verður rætt við hagsmunaaðila. Á þessu stigi hafa engar ákvarðanir verið teknar og viðfangsefnið er til greiningar og mats af sérfræðingum Capacent og í kjölfarið hefst hin eiginlega vinna stýrihópsins.

Í kjölfarið fékk félagið, ásamt nokkrum fornleifafræðingum, safnafólki og arkitektum, fundarboð frá Capacent. Fundurinn fór fram fimmtudaginn 4. febrúar og sat formaður félagsins fundinn. Hér á eftir fylgir samantekt um þær staðreyndir sem fram komu á fundinum ásamt helstu sjónarmiðum sem þar komu fram.

Á fundinum voru, auk Sólrúnar formanns, Bjarni F. Einarsson, Fornleifafræðistofunni, Albína Pálsdóttir, Íslenskum fornleifarannsóknum, Elín Ósk Hreiðarsdóttir frá Fornleifastofnun Íslands, Bergsveinn Þórsson, formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs auk þeirra Arnars Jónssonar og Þrastar Freys Gylfasonar frá Capacent. Í upphafi fundar var gerð athugasemd um það með hversu stuttum fyrirvara fundurinn var boðaður en margir af þeim sem boðaðir voru fengu fundarboð aðeins með tveggja daga fyrirvara. Samkvæmt upplýsingum frá fundarstjórum felst verkefnagreining Capacent á ÞJMS og MÍ í að kanna verkefni og málaflokka þessara stofnanna í dag og meta í kjölfarið kosti og galla þess að:

a) gera engar breytingar á málaflokknum

b) leggja til minnihátta breytinga á verkefnum, tilfærslu eða aukið samstarf á milli stofnananna

c) leggja til sameiningu þessara tveggja stofnana.

Allir sem sátu fundinn voru sammála um að sameining MÍ og Þjms væri slæm hugmynd og var m.a. bent á:

-Að ástæður þess að Fornleifavernd ríkisins var stofnuð á sínum tíma var til að greina á milli Þjóðminjasafns sem hafði stundað rannsóknir í faginu og þess sem færi með löggjafar- og eftirlitshlutverk með rannsóknum. Ekki var talið ásættanlegt (eða löglegt) að sami aðili sæti beggja vegna við borðið.

-Minjastofnun Íslands varð til í núverandi mynd í upphafi árs 2013 og er því aðeins ríflega þriggja ára gömul í því formi sem hún er í dag. Á þessum þremur árum hefur verið unnið að stefnumótun, starfsmönnum fjölgað og ýmislegt gott áunnist. Það er hins vegar vart komin fullnægjandi reynsla á stofnunina ennþá til að meta megi gengi hennar og ávinning og full ástæða til þess að gefa henni betri tíma til að ná markmiðum sínum og þróast.

-Þjóðminjasafn hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á það hlutverk safnsins sem snýr að rannsóknum, m.a. með drögum að samningi við Háskóla Íslands (sem enn hefur ekki verið samþykktur). Lítil reynsla er komin á þetta aukna vægi rannsókna og var bent á a) þetta nýja rannsóknarvægi fari illa saman við eftirlits- og löggjafarhlutverk MÍ (líkt og í gamla daga) og b) að gefa þurfi safninu betri tíma til að þróa þetta rannsóknarhlutverk sitt áður en hægt sé að meta hvernig safninu hefur tiltekist á þessu sviði. Auk þessa stendur safnið frammi fyrir stóru verkefni sem þarf að leysa á næstu árum og mun krefjast talverðra starfskrafta og það er flutningur á geymslum safnsins frá Kópavogi í Hafnarfjörð. Ekki er því talið skynsamlegt að leggja til miklar breytingar á hlutverki safnsins að svo stöddu, enda er það nokkuð víðfermt fyrir og hefur aukist á undanförnum árum og hefur safnið átt í fullu fangi með að sinna þeim verkefnum sem því er ætlað samkvæmt lögum (s.s. söfnun, varðveisla, miðlun, rannsóknir).

-Félagið lýsti yfir áhyggjum á því að möguleg sameining myndi auka við enn meiri óstöðugleika á sviði menningarmála þar sem undanfarin ár hafa einkennst af nýjum löggjöfum, stofnun og sameiningu nýrra ríkisstofnana og stefnumótunarvinnu. Félagið lýsti einnig yfir áhyggjum yfir að mögulegri sameiningu fylgdi niðurskurður, t.d. í starfsmannafjölda en á allra síðustu árum hafa báðar stofnanir náð að fjölga starfsmönnum eitthvað, þótt enn skorti talsvert á að þær hafi nógu marga starfsmenn til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð samkvæmt lögum.

Sem fyrr segir var það einróma álit fundar að sameining Þjóðminjasafns og Minjastofnunar væri slæm hugmynd. Í kjölfarið var rætt um hvort mögulega væri hægt færa einhverja málaflokka á milli stofnanna, eða auka samstarf þeirra á milli og hagræði. Í þessu samhengi var t.d. nefnt: – Að húsasafn Þjóðminjasafns Íslands ætti e.t.v. betur heima undir Minjastofnun Íslands, þar væru þegar að störfum minjaverðir um allt land sem gætu auðveldað eftirlit með safninu auk þess sem arkitektar á vegum stofnunarinnar gætu komið að þeirri vinnu. Í það minnsta mætti hugsa sér að aukið samstarf með þennan málaflokk gæti komið honum til góða.

-Stofnanirnar þyrftu að vinna saman að sameiginlegum málum, eins og móttöku stafrænna gagna úr fornleifarannsóknum. Nú þurfa fornleifafræðingar að skila rannsóknargögnum bæði á MÍ og ÞJMS. Betra væri ef nóg væri að skila á annan staðinn.

-Aukin samvinna milli Þjms. og MÍ var talin af hinu góða en almennt taldi fundurinn að óvenjulítil samskipti og samvinna væri á milli stofnunina tveggja nú þegar.

Hugmynd kom upp um að þetta mál þyrfti að hugsa í stærra samhengi og mögulega fara að fordæmi Dana í þessum efnum sem sameinuðu alla málaflokka er tengjast menningu undir einn hatt, Kulturstyrelsen, sem er beint undir Menningarmálaráðuneyti Dana. (sjá hér t.d. hér). Þar undir yrðu Þjóðminjasafn og Minjastofnun sjálfstæðar einingar sem þó nytu góðs af því að vera innan vébanda stærri menningarstofnunar með tilheyrandi breiðum starfshópi sérfræðinga.

Fundargestir sóttust eftir upplýsingum um hvað lægi að baki þessarar endurkoðunar á málaflokknum en ekki fengust skýr svör við því. Fundarstjórar ræddu um að það væri eðlilegt að endurskoða hlutverk stofnanna, kanna sameiningamöguleika og kanna tilfærslur málaflokka á milli ráðuneyta og/eða stofnanna til að auðvelda stjórnsýslu. Einnig kom fram að upphafleg beiðni um úttektina hafi komið frá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Ljóst er að margir innan fagsins hafa skoðanir á þessu máli og í lok fundar kom fram að ef fólk vill koma á framfæri skoðunum sínum á þessu máli má enn senda póst á Capacent: throstur.gylfason@capacent.is en best væri að koma því til þeirra sem fyrst. Við hvetjum félagsmenn auðvitað til að koma sínum skoðunum á framfæri.

Samkvæmt Capacent mun þeirra vinna enda í skýrslu til Forsætisráðuneytis og þeir töldu líklegt að sú skýrsla yrði opinbert gagn, öllum aðgengileg.

Það er orðið á götunni að þetta eigi að fara fyrir vorþing sem er á næsta leiti þannig að mikilvægt er að koma okkar skoðunum sem fyrst til skila og mun félagið fylgjast grannt með gangi mála.

Ragnheiður Traustadóttir – Byrgin í Eldvörpum

Á morgun, miðvikudag, ætlar Ragnheiður Traustadóttir að fræða okkur um Byrgin í Eldvörpum og tilurð þeirra í sambandi við skráningu á svæðinu sem fór þar fram nýverið. Um að gera að flykkjast í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins á morgun, miðvikudag til að hlusta á þennan skemmtilega fyrirlestur í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í fornleifafræði.

Ragnheiður Trausta - Byrgin í Eldvörpum

Nýjar rannóknir í íslenskri fornleifafræði

Þá er komið að þriðja fyrirlestrinum í þessari spennandi fyrirlestraröð sem skipulögð er af Félagi fornleifafræðinga, Þjóðminjasafninu og námsbrautar í fornleifafræði við Hákóla Íslands. Að þessu sinni er það Sólveig Beck sem ætlar að fræða okkur um kvarnanám á 18. öld og síðar. Hlökkum til að sjá ykkur öll enda um spennandi sem og fræðandi fyrirlestur að ræða.
Solveig - kvarnanám á Íslandi