Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Tilboð óskast í skráningu strandminja

Minjastofnun Íslands óskar eftir tilboðum í átaksverkefni í skráningu strandminja.

Svæðin sem um ræðir eru:

Strandlengja Reykjaness frá Reykjanestá að Garðskaga.

Snæfellsnes frá Hellnum að Ólafsvík.

Strandlengjan frá Hrafnseyri við Arnarfjörð að Þingeyri við Dýrafjörð.

 

Nánari upplýsingar má sjá á vef Minjastofnunnar

 

Doktorsvörn Nikola Trbojevic

Mánudaginn 6. júní fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Nikola Trbojevic doktorsritgerð sína: The Impact of Settlement on Woodland Resources in Viking Age Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðarsal HÍ í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.

Andmælendur eru John Wainwright, prófessor við landfræðideild Háskólans í Durham og Dr. Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins. Aðalleiðbeinandi Nikola var Orri Vésteinssson prófessor í fornleifafræði, en í doktorsnefnd voru auk hans Dr. Hans Skov-Petersen seniorforsker, Institut for geovidenskab og naturforvaltning, Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Svavar Hrafn Svavarsson deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar stjórnar athöfninni.

Um efni ritgerðarinnar

Landnám Íslands seint á 9. öld og í byrjun 10. aldar hafði í för með sér stórfellda skógareyðingu með víðtæk og langvarandi áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Skógareyðing landnámsaldar hefur verið rannsökuð í meira en öld en ekki hefur verið skýrt hvernig skógareyðingin átti sér stað né hvað olli henni. Stærð skóglendis fyrir landnám er ekki þekkt og óljóst er hvort skógareyðingin var óhjákvæmileg aukaverkun landnáms manna og dýra, hvort hún var afleiðing af meðvitaðri stefnu eða ofnýtingu.

Markmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á þetta mál. Lagt er mat á stærð skóglendisins fyrir landnám og sýnt fram á að þörf landnámsmanna fyrir eldsneyti og byggingarefni ein og sér, jafnvel ef mjög rúmt er áætlað, hefði ekki getað haft þessi miklu neikvæðu áhrif á skóglendið. Skógarhögg í þeim tilgangi að rýma fyrir túnum og skapa víðfeðm beitilönd var ástæða hinnar stórfelldu skógareyðingar. Til að rannsaka framgang skógareyðingarinnar eru skilgreindar fjórar sviðsmyndir sem byggja á mismunandi forsendum með tilliti til tiltæks mannafla og félagslegra tengsla. Til að kanna sviðsmyndirnar eru „agent-based“ tölvulíkön keyrð fyrir þrjú rannsóknarsvæði: Vestur-Eyjafjallahrepp, Mývatn og Borgarfjörð. Niðurstöður tölvulíkananna sýndu að skógareyðingin var afleiðing vísvitandi stefnu sem hafði það að markmiði að stofna og þróa samfélag byggt á búfjárrækt. Þessari stefnu var hins vegar framfylgt án fulls skilnings á þolmörkum umhverfisins á hverjum stað. Mjög fljótlega fór að bera á hnignun landgæða á hinum nýju beitilöndum og afrakstur þeirra minnkaði. Þessi hnignun orsakaðist af ofbeit, útbreiðslu beitarþolins gróðurs og einnig, þó í minna mæli, af endurvexti skóga. Upphaflegt umfang af ruddum svæðum reyndist ekki nægjanlegt og því varð víða nauðsynlegt að hefja aftur skógarruðning fyrir nýju beitilandi. Niðurstöður tölvulíkananna gefa einnig til kynna að skógareyðingin hafi hvorki verið eins stórfelld né eins hröð og oft hefur verið haldið fram. Þó svo að skógareyðingin hafi að stærstum hluta átt sér stað fyrir lok 9. aldar, náði heildarferlið yfir mun lengra tímabil sem stóð yfir alla 10. öldina og hélt að öllum líkindum áfram löngu eftir landnám.

Um doktorsefnið

Nikola Trbojevic er fæddur árið 1977. Hann hefur lokið BA-prófi í fornleifafræði við Háskólann í Belgrad og MA-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann er sérfræðingur á Fornleifastofnun Íslands. Hann er kvæntur Huldu Sif Birgisdóttur og eiga þau Silju Björt, 1 árs.

 

Joe Wallace Walser III

Nú er komið að síðasta fyrirlestrinum í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í fornleifafræði. Í þetta sinn er það Joe Wallace Walser III sem ætlar að fræða okkur um verkefnið sitt.

Joe-III

Orri Vésteinsson – Kortlagning dauðans

Þá er komið að enn einum spennandi fyrirlestri í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í fornleifafræði. Að þessu sinni er það sjálfur Orri Vésteinsson sem ætlar að segja okkur örlítið frá verkefninu sínu um kortlagningu grafreita og beinafunda í Þingeyjarsýslu. Fjölmennum nú öll í fyrirlestrasalinn á Þjóðminjasafninu til þess að hlusta á þennan áhugaverða fyrirlestur, miðvikudaginn 20. apríl, kl. 12. Og munið að eins og venjulega eru allir velkomnir!

Orri-page-001

Austurhöfn í Reykjavík

Núna á miðvikudaginn er það hún Sólrún Inga sem ætlar að kynna aðeins fyrir okkur uppgröftinn sem fór fram á gömlu höfninni síðasta sumar. Eins og venjulega eru allir velkomnir!

Solrun-page-001(1) (1)

Selstaða í Drumbabót

Næsti fyrirlestur í fyrirlestraröð Félags fornleifafræðinga, námsbrautar í fornleifafræði og Þjóðminjasafns Íslands er spennandi fyrirlestur um selstöðu við Drumbabót. Eins og venjulega eru allir velkomnir!

ragnheiður og Kristborg

Bréf til þingmanna vegna frumvarps um sameiningu MÍ og ÞJMS

Ákveðið var á síðasta stjórnarfundi þann 16. mars að Félag fornleifafræðinga, ásamt FÍSOS, ætlaði að senda bréf á þingmenn vegna fyrirhugaðar sameiningu MÍ og ÞJMS. Frumvarpið fer í gegnum fyrstu umræðu á þinginu í dag. Bréfið sem sent var hljóðar svo:

Góðan dag,

Undanfarið hafa fornleifafræðingar, safnafólk, arkitektar, prófessorar við Háskóla Íslands og fleiri mótmælt harðlega áformum forsætisráðuneytis um að sameina Minjastofnun Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þar sem virðist standa til að keyra þetta frumvarp í gegn á ógnarhraða án þess að taka tillit til fagaðila langar okkur að minna enn og aftur á mikilvægar staðreyndir sem mæla gegn þessari sameiningu.

  • Fjárhagslegur ávinningur er enginn. Afar óljóst er hversu mikill kostnaður fer í að efla stjórnsýsluna sem verður inni í forsætisráðuneytinu. Það var ekki gert grein fyrir þeim kostnaði í greiningu Capacent né kostnaði við aukinn málafjölda í tengslum við t.a.m. aldursfriðuð hús.
  • Stofnanirnar eru afar ólíkar innbyrðis og með frumvarpinu mun starfsemi Þjóðminjasafns skerðast verulega og draga úr vægi þess sem höfuðsafns samkvæmt safnalögum.
  • Töluvert af rangfærslum eru enn til staðar í frumvarpinu sem sýnir að það er unnið í flýti og án samráðs við fag- og hagsmunaaðila. Þar má sérstaklega nefna áhrif húsafriðunarlaga á almenning. Einnig að fyrirmyndin sé sótt til Noregs en þar byggir kerfið á aðgreiningu stjórnsýslu og rannsókna – öfugt við það sem sameiningin sem boðuð er í frumvarpinu hefur í för með sér og mun leiða til skerðingar á frelsi til vísindarannsókna.

Að lokum viljum við benda á að ferlið í kringum sameininguna hefur einkennst af miklum hraða og ónákvæmni og mörgum spurningum enn ósvarað varðandi skipulag, verkaskiptingu og ýmsa kostnaðarliði.

Við mótmælum því enn að þetta frumvarp verði að lögum!

Virðingafyllst,

Sólrún Inga Traustadóttir, formaður Félags fornleifafræðinga og

Bergsveinn Þórsson, formaður Félags íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS).

Yfirlýsingar félaganna tveggja á frumvarpi þessu má finna hér:

http://www.felagfornleifafraedinga.is/frettatilkynning-fra-felagi-fornleifafraedinga/

http://safnmenn.is/frettir/2428