Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Hátíðardagskrá vegna 100 ára afmæli Kristjáns Eldjárns

Hátíðardagskrá vegna 100 ára afmælis dr. Kristjáns Eldjárns fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands.

Í tilefni þeirra tímamóta býður Þjóðminjasafn Íslands til hátíðardagskrár á afmælisdegi Kristjáns Eldjárns þriðjudaginn 6. desember 2016 kl. 15. Flutt verða stutt erindi, tónlist og lesin ljóð. Hátíðardagskráin er unnin í samvinnu við fjölskyldu Kristjáns Eldjárns, Félag fornleifafræðinga og Forlagið sem gefur út rit í tilefni aldarafmælisins ásamt Þjóðminjasafni Íslands.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður býður gesti velkomna.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands flytur ávarp og setur hátíðardagskrá.
Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands flytur ávarp.

15:30-17:00 Erindi flutt.

Kynnir er Eva María Jónsdóttir.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir
Kristjánsstofa. Byggðasafnið Hvoll, Dalvík.

Ármann Guðmundsson
Vopn til Valhallar. Víkingaaldarsverðin í kumlunum við Þórisá og Hringsdal.

Þór Magnússon
Árin með Kristjáni Eldjárn.

Þórarinn Eldjárn, Stefán Hallur Stefánsson
Ljóðalestur.

Adolf Friðriksson
Fornleifafræðingurinn Kristján Eldjárn.

Kristín Huld Sigurðardóttir
Um snotrar kirkjur og timbruð hús. Dr. Kristján Eldjárn og húsvernd á Íslandi.

17:00-18:00 Tónlistarflutningur og ljóðalestur við Bogasal á 2. hæð. Veitingar í boði.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Að lokinni hátiðardagskrá í Þjóðminjasafninu, stendur Félag fornleifafræðinga fyrir sýningu úr þáttaröðinni Munir og minjar í Bíó Paradís kl. 19. Kristján Eldjárn var einn af stjórnendum þáttanna sem voru á dagskrá hjá RÚV á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Bjórkvöld 14. október

Kæru félagar!

Föstudaginn 14. október næstkomandi ætlum við að hefja haust- og vetrarstarfið með því að bjóða á bjórkvöld með fræðilegu ívafi.

Kvöldið hefst með fyrirlestri Völu Garðarsdóttur og þar ætlar hún að segja stuttlega frá rannsókn sinni á Landssímareitnum og ber fyrirlesturinn heitið ‘Undir heitu malbiki. Fornleifarannsókn á Landssímareitnum, frásagnir úr nútíð og fortíð’. Það verða að sjálfsögðu veitingar í boðinu, bjór, rauðvín, hvítvín og flatbökur á línuna.

Fyrirlesturinn hefst klukkan 18:00 í stofu 101 á Háskólatorgi og þegar líður á kvöldið ætlum við að skunda yfir á Stúdentakjallarann þar sem hægt verður að halda áfram að spjalla og njóta. Á Stúdentakjallaranum verður bjór í boði félagsins fyrir þyrsta félaga, enda er um bjórkvöld að ræða og því má ekki skorta bjór!

Vonumst til þess að sjá sem flesta

-Stjórn Félags fornlefafræðinga

Tilboð óskast í skráningu strandminja

Minjastofnun Íslands óskar eftir tilboðum í átaksverkefni í skráningu strandminja.

Svæðin sem um ræðir eru:

Strandlengja Reykjaness frá Reykjanestá að Garðskaga.

Snæfellsnes frá Hellnum að Ólafsvík.

Strandlengjan frá Hrafnseyri við Arnarfjörð að Þingeyri við Dýrafjörð.

 

Nánari upplýsingar má sjá á vef Minjastofnunnar

 

Doktorsvörn Nikola Trbojevic

Mánudaginn 6. júní fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Nikola Trbojevic doktorsritgerð sína: The Impact of Settlement on Woodland Resources in Viking Age Iceland. Vörnin fer fram í Hátíðarsal HÍ í Aðalbyggingu og hefst kl. 13:00.

Andmælendur eru John Wainwright, prófessor við landfræðideild Háskólans í Durham og Dr. Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins. Aðalleiðbeinandi Nikola var Orri Vésteinssson prófessor í fornleifafræði, en í doktorsnefnd voru auk hans Dr. Hans Skov-Petersen seniorforsker, Institut for geovidenskab og naturforvaltning, Kaupmannahafnarháskóla og Dr. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Svavar Hrafn Svavarsson deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar stjórnar athöfninni.

Um efni ritgerðarinnar

Landnám Íslands seint á 9. öld og í byrjun 10. aldar hafði í för með sér stórfellda skógareyðingu með víðtæk og langvarandi áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Skógareyðing landnámsaldar hefur verið rannsökuð í meira en öld en ekki hefur verið skýrt hvernig skógareyðingin átti sér stað né hvað olli henni. Stærð skóglendis fyrir landnám er ekki þekkt og óljóst er hvort skógareyðingin var óhjákvæmileg aukaverkun landnáms manna og dýra, hvort hún var afleiðing af meðvitaðri stefnu eða ofnýtingu.

Markmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á þetta mál. Lagt er mat á stærð skóglendisins fyrir landnám og sýnt fram á að þörf landnámsmanna fyrir eldsneyti og byggingarefni ein og sér, jafnvel ef mjög rúmt er áætlað, hefði ekki getað haft þessi miklu neikvæðu áhrif á skóglendið. Skógarhögg í þeim tilgangi að rýma fyrir túnum og skapa víðfeðm beitilönd var ástæða hinnar stórfelldu skógareyðingar. Til að rannsaka framgang skógareyðingarinnar eru skilgreindar fjórar sviðsmyndir sem byggja á mismunandi forsendum með tilliti til tiltæks mannafla og félagslegra tengsla. Til að kanna sviðsmyndirnar eru „agent-based“ tölvulíkön keyrð fyrir þrjú rannsóknarsvæði: Vestur-Eyjafjallahrepp, Mývatn og Borgarfjörð. Niðurstöður tölvulíkananna sýndu að skógareyðingin var afleiðing vísvitandi stefnu sem hafði það að markmiði að stofna og þróa samfélag byggt á búfjárrækt. Þessari stefnu var hins vegar framfylgt án fulls skilnings á þolmörkum umhverfisins á hverjum stað. Mjög fljótlega fór að bera á hnignun landgæða á hinum nýju beitilöndum og afrakstur þeirra minnkaði. Þessi hnignun orsakaðist af ofbeit, útbreiðslu beitarþolins gróðurs og einnig, þó í minna mæli, af endurvexti skóga. Upphaflegt umfang af ruddum svæðum reyndist ekki nægjanlegt og því varð víða nauðsynlegt að hefja aftur skógarruðning fyrir nýju beitilandi. Niðurstöður tölvulíkananna gefa einnig til kynna að skógareyðingin hafi hvorki verið eins stórfelld né eins hröð og oft hefur verið haldið fram. Þó svo að skógareyðingin hafi að stærstum hluta átt sér stað fyrir lok 9. aldar, náði heildarferlið yfir mun lengra tímabil sem stóð yfir alla 10. öldina og hélt að öllum líkindum áfram löngu eftir landnám.

Um doktorsefnið

Nikola Trbojevic er fæddur árið 1977. Hann hefur lokið BA-prófi í fornleifafræði við Háskólann í Belgrad og MA-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann er sérfræðingur á Fornleifastofnun Íslands. Hann er kvæntur Huldu Sif Birgisdóttur og eiga þau Silju Björt, 1 árs.