Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Auglýst er eftir umsóknum til rannsóknaseturs Margrétar II. Danadrottningar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag

Sæl og blessuð,

Við viljum vekja athygli á meðfylgjandi auglýsingu þar sem auglýst er eftir umsóknum til rannsóknaseturs Margrétar II. Danadrottningar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag.

Um er að ræða átta nýdoktorastöður til tveggja ára; fimm á sviði náttúruvísinda og þrjár á sviði hug- og félagsvísinda.

Umsóknarfrestur rennur út þann 1. október klukkan 14:00.

Auglýsinguna má finna hér

Kveðja, stjórn FF

Köllun eftir auknum framlögum í fornminjasjóð

Kæru félagsmenn,

Í vikunni sendi félagið bréf til mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands og lýst yfir áhyggjum vegna lágs framlags í Fornminjasjóð. Við vonumst eftir auknu fjármagni og að málið verði tekið til skoðunar en núna hafa aðrar greinar fengið styrk vegna sérstakts fjárfestingarátaks sem er í gangi.

Hér er lesa bréfið í heild sinni:

Bréf til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins

 

Rótgrónu og mikilvægu safnastarfi raskað fyrir skammtímagróða? – Ályktun stjórnar

Stjórn Félags fornleifafræðinga harmar ákvörðun Sveitarfélags Skagafjarðar um að fórna aðsetri Byggðasafns Skagfirðinga fyrir einkarekna sýningu í hagnaðarskyni. Þessar tilfærslur sveitarfélagsins eru vanvirðing við starfsemi safnsins, rannsóknir þess, starfsmenn, sýningar og safnkost.

Byggðasafn Skagfirðinga er öflugasta safn landsins á sviði fornleifarannsókna og hefur fornleifadeildin hlotið marga tugi milljóna íslenskra króna til rannsókna, bæði úr rannsóknarsjóðum hérlendis og erlendis frá. Fornleifarannsóknir á vegum safnsins hafa meðal annars laðað að erlenda vísindamenn, skipt miklu máli fyrir skilning okkar á byggðasögu og varpað nýju ljósi á sögu kirkna og greftrunar.

Byggðasafnið sem er eitt af elstu minjasöfnum landsins hefur starfað af krafti í rúmlega 50 ár og nú á að flytja starfsemi þess í bráðabirgðahúsnæði. Stjórnin tekur undir með Félagi íslenskra safnafræðinga í því að sveitarfélaginu beri skylda til að tryggja safninu viðunandi húsnæði sem eigandi safnsins. Flutningur á heilu safni og starfsemi þess raska verulega öllu almennu safnastarfi og þeim rannsóknum sem safnið stendur að. Er það von okkar að sveitarstjórnin endurskoði þessar hugmyndir í ljósi þeirra verðmæta sem eru fólgin í starfsemi byggðasafnsins.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

Feykir birti ályktunina á heimasíðu sinni: https://www.feykir.is/is/frettir/rotgronu-og-mikilvaegu-safnastarfi-raskad-fyrir-skammtimagroda

 

Skýrsla um Landssímareit enn ókomin: Svar stjórnar Félags fornleifafræðinga

Stjórn Félags fornleifafræðinga undrast gagnrýni í fréttaflutningi Morgunblaðsins um aðgang að
gögnum í vörslu stjórnanda fornleifarannsóknar á Landssímareitnum og hefði talið nærtækast
að blaðið nýtti strax lögformlegar heimildir sínar til að fá þær upplýsingar sem það á rétt á hjá
stjórnvöldum. Er engu líkara en blaðamaður hafi talið sig eiga heimtingu á vinnuskjölum og
úrvinnslugögnum fornleifafræðings, s.s. ljósmyndum og gripum, löngu áður en rannsókninni er
lokið. Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands er fornleifarannsókn á Landssímareit
ekki formlega lokið og ekki hefur verið gerð krafa um skil á lokaskýrslu. Stjórn Félags
fornleifafræðinga telur að fréttaflutningurinn beri keim af deilum um framtíð reitsins og er þar
vegið ómaklega að félagsmanni.

Fornleifarannsókn krefst ítarlegra greininga og túlkunar á öllum þeim gögnum sem safnað er á
vettvangi og henni telst ekki endanlega lokið fyrr en öllum gögnum og gripum hefur verið skilað
til Þjóðminjasafns Íslands ásamt rannsóknarskýrslum til Minjastofnunar, sbr. 40. gr. laga um
menningarminjar og reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna nr. 339/2013.

Fyrir þá sem þekkja starfsumhverfi fornleifafræðinga ætti ekki að koma á óvart að aðstæður
rannsókna sem farið er í vegna byggingaframkvæmda breytast í sífellu og fornleifafræðingar
þurfa að aðlaga starfsumhverfi sínu samkvæmt því.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

 

Hér má sjá fréttaflutning Morgunblaðsins: mbl

Fyrirlestraröð 2018

Nú er hægt að nálgast dagskrá fyrirlestrarraðarinnar 2018 hér. Fyrirlestrarnir verða á miðvikudögum klukkan 12 og í ár bjóðum við upp á 16 spennandi fyrirlestra.

Fyrsta fyrirlesturinn í ár flutti Orri Vésteinsson í hádeginu í dag og er hægt að hlusta á hann í heild sinni á Youtube síðu félagins. Allir fyrirlestrar félagsins munu fara inn á síðuna, þannig að auðvelt verður að nálgast þá þar ef þið missið af hádegisviðburðinum. Svo er um að gera að gerast áskrifandi af Youtube síðunni til þess að missa örugglega ekki af neinu.

1 2 3 7