Félag fornleifafræðinga

Stofnað árið 2013

  

Rótgrónu og mikilvægu safnastarfi raskað fyrir skammtímagróða? – Ályktun stjórnar

Stjórn Félags fornleifafræðinga harmar ákvörðun Sveitarfélags Skagafjarðar um að fórna aðsetri Byggðasafns Skagfirðinga fyrir einkarekna sýningu í hagnaðarskyni. Þessar tilfærslur sveitarfélagsins eru vanvirðing við starfsemi safnsins, rannsóknir þess, starfsmenn, sýningar og safnkost.

Byggðasafn Skagfirðinga er öflugasta safn landsins á sviði fornleifarannsókna og hefur fornleifadeildin hlotið marga tugi milljóna íslenskra króna til rannsókna, bæði úr rannsóknarsjóðum hérlendis og erlendis frá. Fornleifarannsóknir á vegum safnsins hafa meðal annars laðað að erlenda vísindamenn, skipt miklu máli fyrir skilning okkar á byggðasögu og varpað nýju ljósi á sögu kirkna og greftrunar.

Byggðasafnið sem er eitt af elstu minjasöfnum landsins hefur starfað af krafti í rúmlega 50 ár og nú á að flytja starfsemi þess í bráðabirgðahúsnæði. Stjórnin tekur undir með Félagi íslenskra safnafræðinga í því að sveitarfélaginu beri skylda til að tryggja safninu viðunandi húsnæði sem eigandi safnsins. Flutningur á heilu safni og starfsemi þess raska verulega öllu almennu safnastarfi og þeim rannsóknum sem safnið stendur að. Er það von okkar að sveitarstjórnin endurskoði þessar hugmyndir í ljósi þeirra verðmæta sem eru fólgin í starfsemi byggðasafnsins.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

Feykir birti ályktunina á heimasíðu sinni: https://www.feykir.is/is/frettir/rotgronu-og-mikilvaegu-safnastarfi-raskad-fyrir-skammtimagroda

 

Skýrsla um Landssímareit enn ókomin: Svar stjórnar Félags fornleifafræðinga

Stjórn Félags fornleifafræðinga undrast gagnrýni í fréttaflutningi Morgunblaðsins um aðgang að
gögnum í vörslu stjórnanda fornleifarannsóknar á Landssímareitnum og hefði talið nærtækast
að blaðið nýtti strax lögformlegar heimildir sínar til að fá þær upplýsingar sem það á rétt á hjá
stjórnvöldum. Er engu líkara en blaðamaður hafi talið sig eiga heimtingu á vinnuskjölum og
úrvinnslugögnum fornleifafræðings, s.s. ljósmyndum og gripum, löngu áður en rannsókninni er
lokið. Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands er fornleifarannsókn á Landssímareit
ekki formlega lokið og ekki hefur verið gerð krafa um skil á lokaskýrslu. Stjórn Félags
fornleifafræðinga telur að fréttaflutningurinn beri keim af deilum um framtíð reitsins og er þar
vegið ómaklega að félagsmanni.

Fornleifarannsókn krefst ítarlegra greininga og túlkunar á öllum þeim gögnum sem safnað er á
vettvangi og henni telst ekki endanlega lokið fyrr en öllum gögnum og gripum hefur verið skilað
til Þjóðminjasafns Íslands ásamt rannsóknarskýrslum til Minjastofnunar, sbr. 40. gr. laga um
menningarminjar og reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna nr. 339/2013.

Fyrir þá sem þekkja starfsumhverfi fornleifafræðinga ætti ekki að koma á óvart að aðstæður
rannsókna sem farið er í vegna byggingaframkvæmda breytast í sífellu og fornleifafræðingar
þurfa að aðlaga starfsumhverfi sínu samkvæmt því.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

 

Hér má sjá fréttaflutning Morgunblaðsins: mbl

Fyrirlestraröð 2018

Nú er hægt að nálgast dagskrá fyrirlestrarraðarinnar 2018 hér. Fyrirlestrarnir verða á miðvikudögum klukkan 12 og í ár bjóðum við upp á 16 spennandi fyrirlestra.

Fyrsta fyrirlesturinn í ár flutti Orri Vésteinsson í hádeginu í dag og er hægt að hlusta á hann í heild sinni á Youtube síðu félagins. Allir fyrirlestrar félagsins munu fara inn á síðuna, þannig að auðvelt verður að nálgast þá þar ef þið missið af hádegisviðburðinum. Svo er um að gera að gerast áskrifandi af Youtube síðunni til þess að missa örugglega ekki af neinu.

Málþing í minningu Kristjáns Eldjárns – Minjavarsla

Föstudaginn 8. desember kl. 13 verður árlegt málþing Félags fornleifafræðinga haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í samstarfi við Þjóðminjasafnið og Minjastofnun Íslands. Þema málþingsins er “Minjavarsla” og tengist efnið þeim greinum sem birtar verða í Ólafíu, riti Félags fornleifafræðinga, á næsta ári, þ.e. fyrirlesarar munu skrifa greinar um sama efni í Ólafíu.

 

Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
13:00 – Sólrún Inga Traustadóttir, formaður Félags fornleifafræðinga, setur málþingið
13:10 – Agnes Stefánsdóttir og Ármann Guðmundsson. „Fornleifauppgröftur og hvað svo?“
13:30 – Oddgeir Isaksen. „Minjavefsjá Minjastofnunar. Þróun, virkni og framtíðarsýn.“
13:50 – Birna Lárusdóttir og Birkir Einarsson. „Verndarsvæði á Siglufirði: rýnt í myndir, hús og malbik.“
14:10 – Guðmundur Stefán Sigurðarson. „Menningarminjar og náttúruvá.“
14:30 – Sólrún Inga Traustadóttir og Eva Kristín Dal. „Með virðingu fylgir vernd. Hvernig er hægt að auka minjavitund almennings?“
14:50 – Kaffihlé
15:10 – Pallborð – fyrirlesarar og ritnefnd Ólafíu – „Minjavarsla“
16:00 – Málþingi slitið

 

Allir velkomnir!

 

Útdrættir:
Agnes Stefánsdóttir og Ármann Guðmundsson
Fornleifauppgröftur og hvað svo?
Starfsfólk Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands hefur á undanförnum árum unnið saman að því að safna upplýsingum um stöðu fornleifarannsókna síðustu ára og áratuga og úrvinnslu þeirra.
Í þessu erindi verður farið stuttlega yfir ákvæði laga og reglugerða varðandi fornleifarannsóknir og skil á gögnum, hvernig þau hafa virkað í raun og hver staða skila gagna og gripa úr fornleifarannsóknum er í dag.
Kynnt verða fyrstu drög og hugmyndir að breytingum á reglum um fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér og hvaða hugmyndir stofnanirnar hafa varðandi miðlun upplýsinga um og úr fornleifarannsóknum.

Oddgeir Isaksen
Minjavefsjá Minjastofnunar. Þróun, virkni og framtíðarsýn
Minjavefsjá (áður Kortavefsjá) Minjastofnunar var fyrst hleypt af stokkunum árið 2011 í þeim tilgangi að bæta miðlun upplýsinga um menningarminjar í landinu til almennings og aðila sem starfa að skipulagsgerð. Í erindinu verður greint frá grunnuppbyggingu vefsjárinnar, þróun hennar á undanförnum árum, vandamálum sem komið hafa upp og framtíðarmarkmiðum.

Birna Lárusdóttir og Birkir Einarsson
Verndarsvæði á Siglufirði: rýnt í myndir, hús og malbik 
Sumarið 2017 fór fram fornleifaskráning og húsakönnun á fyrirhuguðum verndarsvæðisreit á Þormóðseyri á Siglufirði. Verkið, sem unnið var af Kanon arkitektum og Fornleifastofnun Íslands fyrir Fjallabyggð, fól í sér ítarlega úttekt og greiningu á sögulegum gögnum og vettvangskönnun.
Hér verður sagt frá samvinnunni og möguleikum sem í henni felast og greint frá ýmsum vangaveltum sem kviknuðu í kjölfarið, m.a. um gagnsemi ítarlegrar greiningarvinnu af þessu tagi fyrir mat á landslagi og minjavörslu almennt.

Guðmundur Stefán Sigurðarson
Menningarminjar og náttúruvá
Sagt verður frá helstu niðurstöðum í strandminjaverkefninu og evrópuverkefnið Adapt Northern Heritage kynnt, sem snýr að aðlögun menningararfs og minjavörslu á norðurslóðum að loftlagsbreytingum.

Sólrún Inga Traustadóttir og Eva Kristín Dal
Með virðingu fylgir vernd. Hvernig er hægt að auka minjavitund almennings?
Aðkoma almennings er að verða stærri þáttur í fornleifarannsóknum bæði á Íslandi og erlendis. Í henni felst ákveðinn styrkur fyrir minjavörslu landsins. Með því að upplýsa og fræða ungt fólk um fornleifar og vinnulag fornleifafræðinga með þátttöku þeirra er hægt að stuðla að farsælli minjavernd til framtíðar á grunni aukinnar virðingar og skilnings almennings á fornleifum og fornleifarannsóknum.

Afmælisþing til heiðurs Guðrúnu Sveinbjarnardóttur

Í tilefni af sjötugsafmæli Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings gangast Hugvísindasvið Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn íslands fyrir málþingi til heiðurs henni þann 25. nóvember frá 15-17, á Þjóðminjasafninu

Dagskrá:

  • 15.00-15.10 Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður býður gesti velkomna
  • 15.10-15.30 Helgi Þorláksson: Hversu þverfaglegur geturðu verið?
  • 15.40-16.00 Gavin Lucas: A potted history of Iceland
  • 16.10-16.30 Guðmundur Ólafsson: Bessastaðarannsóknir á tímamótum
  • 16.40-17.00 Orri Vésteinsson: Fram í heiðanna ró – eyðibýlin í íslenskri fornleifafræði
  • 17.00-17.05 Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu. Kveðja frá Snorrastofu

Að loknu málþingi verður móttaka í boði Þjóðminjasafns Íslands í Myndasalnum.

Í tilefni dagsins verða nýútkomnar bækur á tilboði í safnbúð Þjóðminjasafns.

Aðalfundur Félags fornleifafræðinga – 9. nóvember

Kæru félagar

Boðað er til aðalfundar Félags fornleifafræðinga fimmtudaginn 9. nóvember 2017. Fundurinn verður  kl. 18:00 á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Boðið verður upp á veglegar veigar og veitingar frá Veisluspjótum fyrir fundagesti á meðan á fundinum stendur. Eftir fundarhöldin munu Howell Roberts, Hildur Gestsdóttir og Guðrún Alda Gísladóttir vera með erindi um kumlarannsóknirnar á Dysnesi í Eyjafrði sem fóru fram í sumar.

Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra
2. Nýir félagar samþykktir
3. Skýrsla liðins árs
4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins og Ólafíu, rit félagsins.
5. Kosning í stjórn í eftirfarandi embætti: varaformaður, gjaldkeri, meðstjórnandi og einn varamaður.
6. Ákvörðun félagsgjalda
7. Tillögur að lagabreytingum
8. Ritstjóri og ritnefnd Ólafíu kosin
9. Önnur mál
a) Úttekt málaflokksins hjá Ríkisendurskoðun

Við hvetjum félagsmenn til þess að bjóða sig fram til stjórnarsetu en setið er í stjórn 2 ár í senn. Embætti sem eru laus til kosningar á aðalfundinum eru eins og áður sagði: Varaformaður, gjaldkeri, meðstjórnandi og varamaður. Ljóst er að núverandi gjaldkeri ætlar ekki að bjóða sig fram til áframhaldandi setu.

Matseðill kvöldsins:

Miniborgarar
Kjúklingaspjót miðjarahafsins
Súrsætir grísapinnar
Indversk lambaspjót með pikluðum perlulauk
Parmaskinka með melónu og parmesan
Nauta carpaccio með klettasalati og parmesan
Djúpsteiktar risarækjur með kókos
Kryddlegnar mozzarella kúlur

+ 2 Vegan/grænmetisréttir

Bjór, vín, sódavatn og kók

 

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Vorfagnaður Félags fornleifafræðinga

Kæru félagar

Í kvöld verður vorinu fagnað með veglegum veitingum, veigum og fornleifaerindi í boði Bjarna F. Einarssonar.  Fagnaðurinn  fer fram á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík og verður frá Kl. 18:00 – 22:00.

Áður en fyrirlestur og matur hefst ætlum við að skella í einn nokkurra mínútna aukaaðalfund þar sem kosið verður  í stjórn Ólafíusjóðsins, þ.e. sjóðsins sem styrkir útgáfu ritsins Ólafíu. Eini tilgangur stjórnarinnar er að úthluta fé til útgáfunnar, sem hefur verið annað hvert ár síðustu skipti. Auk þess þarf, formsins vegna, að halda aðalfund árlega og samþykkja reikninga. Í stjórnarsetu felst því mjög lítil vinna. Um er að ræða fimm embætti: formann, tvo aðalmenn og tvo meðstjórnendur. Einn stjórnarmeðlima skal einnig vera prókúruhafi fyrir sjóðinn.

Eftir aukaaðalfundinn hefst erindi Bjarna og að sjálfsögðu verða dýrindis veitingar í boðinu:

Miniborgarar
Kjúklingaspjót miðjarahafsins
Indversk lambaspjót með pikluðum perlulauk
Nauta carpaccio með klettasalati og parmesan
Djúpsteiktar risarækjur með kókos
Kryddlegnar mozzarella kúlur
kókos döðlur með chilly
vegan steikarspjót
bauna burrito með fersku salsa

Og svo auvitað veigar: hvítvín, rauðvín, bjór og gos!

Hlökkum til að sjá ykkur!

1 2 3 6