Stofnað árið 2013
  

Lilja Laufey Davíðsdóttir

1 2 3 6

Köllun eftir auknum framlögum í fornminjasjóð

Kæru félagsmenn,

Í vikunni sendi félagið bréf til mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands og lýst yfir áhyggjum vegna lágs framlags í Fornminjasjóð. Við vonumst eftir auknu fjármagni og að málið verði tekið til skoðunar en núna hafa aðrar greinar fengið styrk vegna sérstakts fjárfestingarátaks sem er í gangi.

Hér er lesa bréfið í heild sinni:

Bréf til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins

 

Skýrsla um Landssímareit enn ókomin: Svar stjórnar Félags fornleifafræðinga

Stjórn Félags fornleifafræðinga undrast gagnrýni í fréttaflutningi Morgunblaðsins um aðgang að
gögnum í vörslu stjórnanda fornleifarannsóknar á Landssímareitnum og hefði talið nærtækast
að blaðið nýtti strax lögformlegar heimildir sínar til að fá þær upplýsingar sem það á rétt á hjá
stjórnvöldum. Er engu líkara en blaðamaður hafi talið sig eiga heimtingu á vinnuskjölum og
úrvinnslugögnum fornleifafræðings, s.s. ljósmyndum og gripum, löngu áður en rannsókninni er
lokið. Samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands er fornleifarannsókn á Landssímareit
ekki formlega lokið og ekki hefur verið gerð krafa um skil á lokaskýrslu. Stjórn Félags
fornleifafræðinga telur að fréttaflutningurinn beri keim af deilum um framtíð reitsins og er þar
vegið ómaklega að félagsmanni.

Fornleifarannsókn krefst ítarlegra greininga og túlkunar á öllum þeim gögnum sem safnað er á
vettvangi og henni telst ekki endanlega lokið fyrr en öllum gögnum og gripum hefur verið skilað
til Þjóðminjasafns Íslands ásamt rannsóknarskýrslum til Minjastofnunar, sbr. 40. gr. laga um
menningarminjar og reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna nr. 339/2013.

Fyrir þá sem þekkja starfsumhverfi fornleifafræðinga ætti ekki að koma á óvart að aðstæður
rannsókna sem farið er í vegna byggingaframkvæmda breytast í sífellu og fornleifafræðingar
þurfa að aðlaga starfsumhverfi sínu samkvæmt því.

Fyrir hönd stjórnar Félags fornleifafræðinga,
Sólrún Inga Traustadóttir, formaður FF

 

Hér má sjá fréttaflutning Morgunblaðsins: mbl

Fyrirlestraröð 2018

Nú er hægt að nálgast dagskrá fyrirlestrarraðarinnar 2018 hér. Fyrirlestrarnir verða á miðvikudögum klukkan 12 og í ár bjóðum við upp á 16 spennandi fyrirlestra.

Fyrsta fyrirlesturinn í ár flutti Orri Vésteinsson í hádeginu í dag og er hægt að hlusta á hann í heild sinni á Youtube síðu félagins. Allir fyrirlestrar félagsins munu fara inn á síðuna, þannig að auðvelt verður að nálgast þá þar ef þið missið af hádegisviðburðinum. Svo er um að gera að gerast áskrifandi af Youtube síðunni til þess að missa örugglega ekki af neinu.

Málþing í minningu Kristjáns Eldjárns – Minjavarsla

Föstudaginn 8. desember kl. 13 verður árlegt málþing Félags fornleifafræðinga haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í samstarfi við Þjóðminjasafnið og Minjastofnun Íslands. Þema málþingsins er “Minjavarsla” og tengist efnið þeim greinum sem birtar verða í Ólafíu, riti Félags fornleifafræðinga, á næsta ári, þ.e. fyrirlesarar munu skrifa greinar um sama efni í Ólafíu.

 

Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
13:00 – Sólrún Inga Traustadóttir, formaður Félags fornleifafræðinga, setur málþingið
13:10 – Agnes Stefánsdóttir og Ármann Guðmundsson. „Fornleifauppgröftur og hvað svo?“
13:30 – Oddgeir Isaksen. „Minjavefsjá Minjastofnunar. Þróun, virkni og framtíðarsýn.“
13:50 – Birna Lárusdóttir og Birkir Einarsson. „Verndarsvæði á Siglufirði: rýnt í myndir, hús og malbik.“
14:10 – Guðmundur Stefán Sigurðarson. „Menningarminjar og náttúruvá.“
14:30 – Sólrún Inga Traustadóttir og Eva Kristín Dal. „Með virðingu fylgir vernd. Hvernig er hægt að auka minjavitund almennings?“
14:50 – Kaffihlé
15:10 – Pallborð – fyrirlesarar og ritnefnd Ólafíu – „Minjavarsla“
16:00 – Málþingi slitið

 

Allir velkomnir!

 

Útdrættir:
Agnes Stefánsdóttir og Ármann Guðmundsson
Fornleifauppgröftur og hvað svo?
Starfsfólk Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands hefur á undanförnum árum unnið saman að því að safna upplýsingum um stöðu fornleifarannsókna síðustu ára og áratuga og úrvinnslu þeirra.
Í þessu erindi verður farið stuttlega yfir ákvæði laga og reglugerða varðandi fornleifarannsóknir og skil á gögnum, hvernig þau hafa virkað í raun og hver staða skila gagna og gripa úr fornleifarannsóknum er í dag.
Kynnt verða fyrstu drög og hugmyndir að breytingum á reglum um fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér og hvaða hugmyndir stofnanirnar hafa varðandi miðlun upplýsinga um og úr fornleifarannsóknum.

Oddgeir Isaksen
Minjavefsjá Minjastofnunar. Þróun, virkni og framtíðarsýn
Minjavefsjá (áður Kortavefsjá) Minjastofnunar var fyrst hleypt af stokkunum árið 2011 í þeim tilgangi að bæta miðlun upplýsinga um menningarminjar í landinu til almennings og aðila sem starfa að skipulagsgerð. Í erindinu verður greint frá grunnuppbyggingu vefsjárinnar, þróun hennar á undanförnum árum, vandamálum sem komið hafa upp og framtíðarmarkmiðum.

Birna Lárusdóttir og Birkir Einarsson
Verndarsvæði á Siglufirði: rýnt í myndir, hús og malbik 
Sumarið 2017 fór fram fornleifaskráning og húsakönnun á fyrirhuguðum verndarsvæðisreit á Þormóðseyri á Siglufirði. Verkið, sem unnið var af Kanon arkitektum og Fornleifastofnun Íslands fyrir Fjallabyggð, fól í sér ítarlega úttekt og greiningu á sögulegum gögnum og vettvangskönnun.
Hér verður sagt frá samvinnunni og möguleikum sem í henni felast og greint frá ýmsum vangaveltum sem kviknuðu í kjölfarið, m.a. um gagnsemi ítarlegrar greiningarvinnu af þessu tagi fyrir mat á landslagi og minjavörslu almennt.

Guðmundur Stefán Sigurðarson
Menningarminjar og náttúruvá
Sagt verður frá helstu niðurstöðum í strandminjaverkefninu og evrópuverkefnið Adapt Northern Heritage kynnt, sem snýr að aðlögun menningararfs og minjavörslu á norðurslóðum að loftlagsbreytingum.

Sólrún Inga Traustadóttir og Eva Kristín Dal
Með virðingu fylgir vernd. Hvernig er hægt að auka minjavitund almennings?
Aðkoma almennings er að verða stærri þáttur í fornleifarannsóknum bæði á Íslandi og erlendis. Í henni felst ákveðinn styrkur fyrir minjavörslu landsins. Með því að upplýsa og fræða ungt fólk um fornleifar og vinnulag fornleifafræðinga með þátttöku þeirra er hægt að stuðla að farsælli minjavernd til framtíðar á grunni aukinnar virðingar og skilnings almennings á fornleifum og fornleifarannsóknum.

1 2 3 6